Avsnitt
-
„Einsagan getur blómstrað hér á Íslandi meira en kannski erlendir, því að þegar maður kemur inn í þessu risa stóru söfn, það er svo yfirþyrmandi magn af fólki sem býr í þessum svakalegum samfélögum,“ sagði Guðný Hallgrímsdóttir um kosti þess að stunda einsögurannsóknir á Íslandi. Guðný hefur m.a. rannsakað hag íslenskra alþýðukvenna á 18. öld sem fóru til Danmerkur að mennta sig. Guðný og Davíð Ólafsson, sagnfræðingur, sammæltust um að stafræna byltingin hafi fjölgað möguleikum sagnfræðinga á rannsóknum. Davíð hefur sérhæft sig í handritamenningu og læsisiðkun, og hefur sérstaklega skoðað skrif Sighvats Grímssonar, borgfirðings.
Guðný Hallgrímsdóttir og Davíð Ólafsson, sagnfræðingar, voru gestir í fimmta þætti Baðstofunnar, sem að þessu sinni fjallaði um einsögurannsóknir. Þau spjölluðu við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur um rannsóknir sínar og möguleikana sem felast í því að stunda einsögurannsóknir í íslenskri sagnfræði.
Einsaga er rannsóknaraðferð innan sagnfræðinnar þar sem einblínt er á hið smáa – eins og einn einstakling eða lítið samfélag, og sá hlutur rannsakaður til hlítar. Einsögurannsóknir eiga oft við þá einstaklinga sem fá almennt litla athygli eða eru lítils metnir, og skera sig út á einhvern hátt. Einsagan er því gífurlega fjölbreytt og hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarna áratugi.
-
Saknas det avsnitt?
-
Íris Ellenberger, sagnfræðingur og lektor við menntavísindasvið, var gestur í fjórða þættir Baðstofunnar, en hún kom og ræddi við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildur Elísabetu Þórsdóttur um hinseginsögu og verkefnið Huldukonur, sem Íris ásamt Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur og Ástu Kristínu Benediktsdóttur hlaut styrk frá Jafnréttissjóði fyrir. Afurð verkefnisins er vefsíðan Huldukonur.is, þar sem heimildum um hinsegin kynverund kvenna á Íslandi fyrir 1960 hefur verið safnað saman.
Íris fjallaði meðal annars um þá þögn sem ríkir í heimildunum þegar kemur að hinseginleika, og hvernig væri hægt að vinna með þögnina frekar en að staðnæmast við hana. Hún sagði nær allt eiga eftir að rannsaka í hinsegin sögu Íslands, og verkefnið Huldukonur er því einungis upphafsskref að bættu aðgengi að heimildum um hinsegin kynverund á Íslandi.
-
Ragnheiður Kristjánsdóttir og Erla Hulda Halldórsdóttir voru gestir í þriðja þætti Baðstofunnar, en þær ræddu nýja rannsókn sem þær hafa unnið að undanfarin fimm ár, ásamt Þorgerði Þorvaldsdóttur og Hönnu Guðlaugu Guðmundsdóttur. Rannsóknin ber nafnið „Í kjölfar kosningaréttar. Félags- og menningarsöguleg rannsókn á konum sem pólitískum gerendum 1915-2015“ og er bók væntanleg nú í haust. Sú bók heitir Konur sem kjósa, og að henni koma þær Ragnheiður, Erla Hulda og Þorgerður, ásamt Kristínu Svövu Tómasdóttur.
Ásamt því að ræða rannsóknina ræddu þær stöðu kvenna- og kynjasögunnar í íslensku fræðasamfélagi, og rannsóknarmöguleika á því sviði.
-
„Þannig er miðaldasagan mjög mikið svona púsluspil – maður er að taka púsl hér og þar, búa til einhverja svona trúverðuga mynd og þarf að vera mjög gagnrýninn á allar heimildir. Og ef það tekst þá er maður samt einhverju nær,“ sagði Sverrir Jakobsson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslandssem sérhæfir sig í miðöldum. Hann hefur m.a. gefið út bækurnar Við og veröldin – Heimsmynd Íslendinga 1100–1400, Auðnaróðal – Baráttan um Ísland 1096–1281 og Kristur – Saga hugmyndar.
Sverrir ræddi við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur í öðrum þætti Baðstofunnar. Umræðuefnið var miðaldasaga, en Sverrir hefur undanfarið stýrt verkefninu Norrænir menn í Austurvegi, þar sem hann skoðar sérstaklega sögu Væringja og Garðaríkis. Fjöldi annarra fræðimenna kemur að verkefninu en Sverrir hefur einblínt sérstaklega á hugarfar og heimsmynd miðaldamanna, og skoðar í þessu verkefni tengsl á milli menningarheima með því að bera saman heimildir mismunandi menningarheima sem geta þessara manna.
Í þættinum ræddi hann áskoranir þess að vinna með efni sem margir telja „fullskrifað“, en Sverrir segir íslenska miðaldafræðinga eiga meira en nóg eftir órannsakað, þar sem það væri alltaf hægt að spyrja heimildirnar nýrra spurninga. Hann sagði ýmislegt vera til í þeirri staðhæfingu að hver kynslóð þyrfti að skrifa söguna upp á nýtt, og miðaldasagan er engin undantekning á því.
-
„Sumir halda því fram að tilfinningar séu sammannlegar, og ég held að það sé ekki rétt. Við sjáum það í bændasamfélagi 19. aldar. Bara þetta — að missa barn — við myndum náttúrulega leggjast í rúmið ef við misstum kornabarn. Það er hryllilegur atburður, og það eru frásagnir af því sem við erum að lesa í blöðunum núna í dag, ef fólk missir ungt barn. En á þessum tíma þá hafði fólk bara ekkert val, það bara varð að halda áfram. Taktur hversdagslífsins kallaði á það að þú sinntir skepnunum; þú gast ekkert dregið þig í hlé og syrgt. Þú þurftir að gera það allavega á einhvern annan hátt,“ sagði Sigurður Gylfi Magnússon, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, og bætti við að hann taldi fólk hafa tjáð sig í gegnum bókmenntir, þar sem fjöldinn allur af lausavísum um alls kyns tilfinningar liggur eftir bændasamfélag 19. aldar.
Sigurður Gylfi ræddi við Steinunni Sigþrúðardóttur Jónsdóttur og Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur í fyrsta þætti Baðstofunnar. Umræðuefnið var tilfinningasaga (e. emotionology), sú grein innan sagnfræðinnar sem skoðar sögu tilfinninga. Hlutur tilfinninga í sagnfræðiritum hefur aukist hratt og örugglega undanfarin ár og áratugi. Sigurður Gylfi er með doktorkspróf frá Carnegie Mellon háskóla í Bandaríkjunum, þar sem hann lærði undir Peter N. Stearns, einum fremsta tilfinningafræðing heims, sem hann sagði hafa haft áhrif á sýn hans á viðfangsefni sagnfræðinnar.
Saga tilfinninga tekst á við fjölbreytt efni, líkt og hlutverk reiðinnar í samfélagsþróun, hvernig fólk syrgir, og hvernig fólk elskar. Tilfinningasagnfræðingar hafa einnig tekist á um hvort tilfinningaleg geta fólks hafi tekið breytingum í gegnum tíðina, þar sem sumir líta á ást sem nútímafyrirbæri og aðrir telja einungis tjáningu tilfinninga eins og ástar vera breytilega.
Sigurður Gylfi hefur m.a. skrifað um ást og sorg út frá tveim bræðrum á Ströndum — þeim Halldóri og Níels —í bók sinni Menntun, ást og sorg. Hann lýsir reynslu sinni af þeirri rannsókn, en nýlegasta bókin hans, Emotional experience and microhistory, skoðar tilfinningalíf og reynslu Magnúsar Hj. Magnússonar, sem var einstaklega ritfær og varð Halldóri Laxness fyrirmynd að Heimsljósi. Báðar þessar rannsóknir áttu það sameiginlegt að sýn hans á einstaklingana sem hann fjallar um gjörbreyttist með tilkomu nýrra heimilda. Hann sagði heimildirnar geta verið ótrúlegar: „Það getur verið erfitt að vinna sem sagnfræðingur, reyna að setja sig í spor fólks sem þú telur þig þekkja vel, og þér líkar vel við fólkið. En svo kemur bara eitthvað annað í ljós.“