Avsnitt

  • Æsispennandi lokaþáttur sem eflaust margir táruðust yfir. Ljóst verður í endurliti að andlát Margrétar bar þannig að að hún fékk sér banvænan skammt af gasi í lauginni í gleðskap ungmennanna fyrir þrjátíu árum og vaknaði ekki aftur. Jóhanna hefur ekki tekið lyfin sín lengi, af ótta við að missa sambandið við Margréti, og er komin í maníu. Ragnar er enn reiður út í Kristínu fyrir að hafa ekki sagst sér frá Lilju og Matti getur ekki talað við þá síðarnefndu eftir að hann komst að skyldleika þeirra. Þegar Jóhanna lætur sig hverfa er björgunarsveitin kölluð út og Kristín og Ragnar þurfa að vinna saman í von um að finna hana.

    Loks er rætt við leikstjóra Vitjana hana Evu Sigurðardóttur sem margir viðmælendur mínir hafa verið að mæra í þessu ferli öllu. Hún sagði mér frá einelti sem hún varð fyrir í grunnskóla, óvæntri dvöl í Tékklandi, barnaláni og auðvitað Vitjanaferlinu öllu sem er ekki endilega alveg lokið...

    Pétur G. Markan starfaði sem bæjarstjóri á Súðavík en er guðfræðimenntaður Biskupsritari. Sem bæjarstjóri var hann búsettur á stað þar sem skelfilega mannskætt snjóflóð féll, og þekkir það hvernig smærra samfélag stendur saman í sorginni þegar áfall verður eða missir. Hann ræðir um trúmál, draugagang og missi. Nick Cave sem missti son sinn, ber á góm og Pétur segir okkur hvernig hann tókst á við fráfall föður síns.

    Takk fyrir mig - þar til næst!

  • Lilja verður sífellt afundnari við Kristínu móður sína og á endanum springur allt í loft upp á milli þeirra. Hún er enda meðvituð um að Helgi er ekki faðir hennar heldur Ragnar, sem veldur því að hún er náskyld kærasta sínum Matta. Hugrún áttar sig á því að hún getur ekki veitt móður sinni þá umönnun sem hún þarf. Siggi kemur heim úr fangelsi og reynir að kaupa sér fyrirgefningu fjölskyldunnar með því að reiða fram gjafir en loksins ákveða Hanna og synirnir að hér sé nóg komið. Það er að lokum Villi litli sem fer heim til afa síns, hnuplar þaðan byssu og beinir honum loks að föður sínum með þeirri skipun að hann drulli sér út.

    Lúkas, Baldur og Mikael leika drengina þrjá, Villa, Arnar og Matta og þeir eru allir ungir upprennandi leikarar sem gefa þeim eldri og reyndari ekkert eftir í dramatískum og erfiðum senum. Þeir segja frá því hvenær þeir byrjuðu að leika, hvernig það er að leika manneskju að verða fyrir barnsmíðum og hvað þeir tóku sér fyrir hendur í Grundarfirði á meðan á tökunum stóð.

    Hrönn Friðriksdóttir er miðill og spákona, búsett í Hveragerði. Hún, les í spil og ræðir við framliðna. Ég spurði hana um allt um sálirnar, hve lengi þær reika um eftir dauðann og hvernig það er að átta sig á að maður sér meira en næsti maður.

  • Saknas det avsnitt?

    Klicka här för att uppdatera flödet manuellt.

  • Nú fer heldur betur að draga til tíðinda á Hólmafirði. Kristín hefur slegið mikilvægu samtali við Ragnar á frest, þrátt fyrir pressu frá Ingu, samtalinu um líffræðilegt faðerni Lilju. Sú síðarnefnda er byrjuð að stunda kynlíf og fær blöðrubólgu, en hefur ekki hugmynd um að bólfélaginn er náskyldur henni. Hún fer á eitísball í skólanum þar sem Matti og Hörður reyna að grafa stríðsöxina eftir bílslysið, það lítur út fyrir að Hörður beri heitar tilfinningar til Matta sem ekki eru gagnkvæmar. Einmitt þegar Kristín ætlar að láta verða af því verður stór sprenging við skólann eftir illa skipulagða flugeldasýningu, sem krefst fullrar athygli hennar.

    Að þessu sinni kíktu við tvær kjarnakonur, Eva Vala Guðjónsdóttir og Tinna Ingimarsdóttir. Það er þær sem hanna útlit karakterana, sjá um búninga og förðun og þær höfðu frá ýmsu að segja.

    Svo mætti Erik Brynjar Eriksson sem tilheyrir líklega uppteknustu og einni eftirsóttustu stétt Íslands, hann er geðlæknir. Hann átti erfitt með að horfa upp á heimilisofbeldið í Vitjunum því margir af hans skjólstæðingum hafa lent í skelfilegu ofbeldi, en hann er afar hrifinn af þáttunum. Erik er hugsjónamaður, ætlaði sér í barnalækningar því hann ætlaði að finna sér kærustu, það tókst en vegna áhuga hans á fólki varð hann geðlæknir og hefur sannarlega ekki litið um öxl þó starfið geti verið erfitt og það er sárt að geta ekki læknað alla.

  • Kristín hefur í mörgu að snúast þegar hópur fólks sýnir sérkennileg sjúkdómseinkenni og grunur vaknar að fólkið sé með smitsjúkdóm. Á sama tíma berst Ragnar við tilfinningar sínar í garð Kristínar.

    Sara Dögg Ásgeirsdóttir fer með hlutverk Kristínar í Vitjunum. Hún kíkti við og sagði frá kynnunum við Kristínu, rómansinum á milli Kristínar og Ragnars, leitinni að sjálfinu og hvernig hún uppgötvaði leikkonuna í sér þegar hún dansaði á torgi sem barn.

    Þættirnir gerast í Hólmafirði en eru teknir upp í Grundarfirði. Helga Braga fer með hlutverk bæjarstjórans í Hólmafirði sem mætir í sóttvarnarhúsið með kleinur, og heldur ræðu í afmælisveislunni. Bæjarstjórinn í Grundarfirði, Björg Ágústsdóttir, rifjar það upp hvernig það var að taka á móti aðstandendum þátttanna þegar þeir voru teknir upp í bænum. Hún kíkti við og sagði frá smábæjarlífinu í Grundarfirði og að hvaða leyti Hólmafjörður og Grundarfjörður eru líkir staðir.

    Að lokum kíkti Guðmundur Gunnarsson við, fréttastjóri Markaðarins og fyrrum bæjarstjóri Ísafjarðar, en hann lítur fyrst og fremst á sig sem Vestfirðing. Hann er alinn upp í Bolungarvík, fluttist burt um tvítugt en sneri aftur á Vestfirði til að taka við embætti bæjarstjóra en hraktist þaðan eftir tæp tvö ár hans í starfi eftir leiðindamóral sem hann upplifði í bænum. Hann segir frá þessari reynslu, hvernig smábæjarstemningin sem birtist í Vitjunum getur haft sínar dökku hliðar.

  • Tónlistin í Vitjunum hefur vakið mikla athygli og í þessum fjórða þætti fáum við að heyra glænýtt lag eftir tónskáldið Ragnar Ólafsson. Lagið nefnist Hugsanir og gæti hreinlega orðið sumarsmellurinn í ár. Ragnar er gestur hlaðvarpsins að þessu sinni og hann talaði um samstarfið með frænku hans og leikstjóranum Evu, Grundafjörð, ást hans á karakterunum og tónlistina sem hann brennur fyrir.

    Heimilisofbeldi er sannarlega stórt vandamál hér á landi og um allan heim. Hanna er ekki tilbúin að þiggja þá hjálp sem býðst en kannski hefur Kristín brotið ísinn að einhverju leyti með því að segja það hreint út að hún viti að Siggi er að berja hana, og að hún sé til staðar. En hvaða úrræði eru í boði fyrir konur og börn og fólk af öðrum kynjum sem búa á heimilum þar sem ofbeldi er beitt? Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra samtaka um Kvennaathvarf kíkti í heimsókn og sagði frá því.

  • Kristín fríkar út í þessum þriðja þætti og það gengur á ýmsu. Hún segir móður sinni að draugar séu ekki til, hún sé einfaldlega veik og Lilja fer frekar í partí en að heimsækja pabba sinn.

    Að þessu sinni er rætt við hæfileikabúntið Kötlu Njálsdóttur leikkonu sem fer með hlutverk Lilju í þáttunum um leiklistina, sönginn og hvernig hún tengir við karakterinn sinn í þáttunum.

    Héðinn Unnsteinsson mætir og segir frá sinni reynslu af geðhvörfum, deilir heimspekilegri sýn sinni á lífið og tilveruna, fjallar um víddir, skynjun og draugagang.

  • Jóhann Máni Jóhansson kvikmyndatökumaður segir aðeins frá uppruna sínum, hvernig hann kynntist myndavélinni og tengir við myndatökuáhuga Lilju í þáttunum. Hann útskýrir hvað kvikmyndatökumaður þarf að hafa í huga þegar þættir eins og Vitjanir eru teknir upp.

    Svo kom Þyrí Halla Steingrímsdóttir hæstaréttarlögmaður og ræddi um sína sýn á skilnaðardeilu Kristínar og Helga. Hún gat sagt okkur hvað hún myndi ráðleggja þeim báðum að gera í þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp í hjónabandinu og forræðismálum.

  • Fyrsti þáttur sjónvarpsþáttanna Vitjanna var frumsýndur á RÚV á páskadag og það er strax komið fjör í leikinn. Við blasir nýr og krefjandi veruleiki í lífi Kristínar læknis og dóttur hennar Lilju sem eru nýfluttar í heimabæ Kristínar í Hólmafirði. Draugar fortíðar fara á stjá á fjölsóttum miðilsfundi, óuppgerð vandamál frá borginni elta þær uppi og gömul skot skjóta upp kollinum.

    Júlía Margrét ræddi við þær Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og Völu Þórsdóttur leikkonur og handritshöfunda sem skrifuðu þættina og fara báðar með hlutverk í þeim. Kristín Svava Tómasdóttir ljóðskáld og sagnfræðingur kíkti líka við og rakti sögu spíritista á Íslandi og við heyrum brot úr viðtali við Láru miðil, einn frægasta miðil Íslands, sem Matth[as Johannessen-tók við hana árið 1961.

  • Í þáttunum Með Vitjanir á heilanum ætlum við að kafa örlítið dýpra í ýmis mál og atburði sem tengjast þáttunum sjálfum. Við skyggnumst einnig á bakvið tjöldin og heyrum frá fólkinu sem gerði þættina. Þættirnir koma út strax að loknum útsendingu í sjónvarpinu.

    Umsjón: Júlía Margrét Einarsdóttir.